4. Afrennsliskerfi vega

4.1. Almennt

Aðal tilgangur afrennsliskerfis vegar er að koma vatni frá vegi og umhverfi hans. Afrennsliskerfið samanstendur af tveimur megin hlutum; afrennsli og afvötnun. „Afvötnun“ snýr að því hvernig regnvatn rennur af yfirborði vegar. „Afrennsli“ snýr aftur á móti að öllum þeim mismunandi hlutum innviða kerfisins sem halda veghlotinu þurru. Í Svíþjóð er „afrennsli“ skipt í tvo flokka: Afvötnun vatns sem tilfellur af vegyfirborði og rennur um vegaxlir og rásir í átt að skurðum. Afrennsli vatns sem þarf að safna og koma af yfirborði og af veghloti þannig ekki myndist pollar á veginum og tjarnir í skurðum.

“Afvötnun” tekur til eftirfarandi þátta:

– Þverhalla

– Vegaxla

– Ógegndræp efni í yfirborðslagi

Dæmigert „afrennslis“ kerfi tekur til eftirfarandi þátta:

– Frárennslisskurða

– Hliðarskurðir og rásir

– Ræsi

– nnri og ytri fláa

– Veghlotslögum

– Niðurföll

Afrennsliskerfi getur aldrei orðið betra en veikasti hlekkur þess. Ef einhver hluti þess er ekki að virka sem skyldi mun kerfið allt líða fyrir það og valda skemmdum á veginum. Vel byggt og vel viðhaldið afrennsliskerfi er aftur á móti mjög arðbær fjárfesting. Aðalkostir góðs kerfis eru: skilvirkt afrennsli regnvatns af vegyfirborði og nánasta umhverfi vegarins, þurrt veghlot, gott burðarþol, og öruggur vegur sem gott er að keyra á.

Heimild:

Bakgrundsdokument till handledning för identifiering av behov av avvattninsåtgärsder

Teiden suunnittelu IV, Tien rakenne 4, kuivatus

4.2 Bundið slitlag og malar slitlag

Slitlag er efsta lag veghlots. Eitt hlutverk bundins slitlags er að vera vatnsheld hlíf fyrir undirliggjandi lög. Hægt er að ná þessu fram ef slitlagið er ógegndræpt og sprungulaust. Slitlag verður einnig að hafa nægan þverhalla til þess að vatn (regn, bráðinn snjór eða ís) renni hratt og örugglega af því

Þverhalli ræðst af vegtegund og efni í slitlagi. Á beinum vegi þarf þverhalli að vera á milli 3 og 5 %. Í vegum með bundnu slitlagi er mælt með að þverhalli sé 3 %, og á vegum með malar slitlagi 5%. Á beinum vegi er þverhalli venjulega einnig rishalli.

Á hlykkjóttari vegum verður þverhalli nokkurs konar einhalli eða með öðrum orðum „einhliða þverhalli“. Á mjórri vegum er erfitt að koma við og viðhalda rishalla vegna þversniðsbreiddar. Einfaldara er því að miða við einhalla (inn eða úthalla) á fáförnum malarvegum fremur en rishalla. Lágmarkskröfur fyrir þverhalla þarf að athuga fyrir hverja beygju. Ræðst þverhalli t.d. af hönnunarhraða og geómetríu (radíus beygju) vegarins. Þverhalli beygju er einnig mikilvægur þegar kemur að akstri um veginn.

Mjög mikilvægt er að ekki sé skipt ört um þverhalla þar sem slíkt getur haft slæm áhrif á há og þung ökutæki og dregið úr umferðaröryggi. Mikilvægi þverhalla er gerð góð skil í ROADEX skýrslum sem fjalla um áhrif titrings á mannslíkamann eftir Johan Granlund

Erfitt og dýrt hefur reynst að mæla þverhalla í gegnum tíðina en með nútíma hrýfimælingum, þrívíddar hröðunarmælum og geislaskanna aðferðum hafa orðið til ný tæki til þess að mæla þverhalla á skilvirkari hátt. Prufuniðurstöður með slíkum aðferðum hafa einnig leitt í ljós mikilvægi afrennslis þegar kemur því að viðhalda góðum þverhalla og öfugt.

Heimildir:

Bakgrundsdokument till handledning för identifiering av behov av avvattninsåtgärsder

Teiden suunnittelu IV, Tien rakenne 4, kuivatus (in Finnish)

4.3 Hliðarskurðir (vegrásir)

Skurðir eða vegrásir til sem liggja samsíða vegi safna vatni og beina því að útfallsskurðum og eru sérstaklega mikilvægir hlekkir í afrennsliskerfinu þegar vegur liggur um skeringu. Ef vegur er á hárri fyllingu, eru skurðir ekki alltaf nauðsynlegir og meta þarf þörfina fyrir þá í hverju tilfelli.

Langhalli vegrásar ætti að minnsta kosti að vera 4 ‰ (4 mm/m) miðað við eldri finnskar leiðbeiningar. Í Svíþjóð er mælt með að langhallinn sé að minnsta kosti 5‰ (5mm/m).

Í Svíþjóð er hliðarskurðum skipt í tvo flokka:  1) vegrásir í skeringu (“skärningsdike”) og 2) regnvatnsskurðir (“dagsvattendike”). Miðað við sænsku leiðbeiningarnar ætti botn vegrásar að minnsta kosti að vera 30 cm neðar en botn vegarins. Í Finnlandi er miðað við 25 cm. Noregur er með hæstu kröfurnar um 35 cm miðað við nýbyggða vegi. Dýpri rásir en þetta bæta ekki afrennsli svo miklu nemi. ROADEX prufur í Svíþjóð hafa sýnt fram á það.

Regnvatnskurður safnar aðeins regnvatni frá veginum og umhverfi hans, þ.e. jarðvegur er þurr og grunnvatnsyfirborð liggur djúpt. Hönnunardýpt slíkra skurða í Svíþjóð er 0,5 m miðað við yfirborð vegarins. Notast má við slíkan skurð þar sem jarðvegur er gegndræpur og grunnvatnsborð liggur dýpra en 1,0 m miðað við vegbotn. Samkvæmt eldri finnskum hönnunarreglum ætti botn slíks skurðar að vera 15 sm dýpri en botn neðra burðarlags. Auk þess ætti jarðvegur að vera frostfrír.

Ástand skurða hefur í gegnum tíðina verið metið á sjónrænan máta en slík aðferð er huglæg og mjög háð því hvernig tímabundið ástand skurðanna er. Auk þess breytist form skurða venjulega mjög hægt og því er aðeins hægt að greina verstu hlutana með því að horfa á þá og almennt verður botn skurða útundan í slíkum skoðunum. Í ROADEX verkefninu hafa margar aðferðir verið prófaðar til þess að leysa þessi vandamál og sú aðferð sem gefið hefur besta raun er að nota bæði geislaskanna og jarðsjá.



Heimildir:

Bakgrundsdokument till handledning för identifiering av behov av avvattninsåtgärsder (Sweden)

Teiden suunnittelu IV, Tien rakenne 4, kuivatus (Finland)

Geller & Sherad: Low volume roads engineering – Drainage of low volume roads

4.4 Frárennslisskurðir

Frárennslisskurðir eru sá hluti afrennsliskerfisins sem leiðir vatn úr hliðarskurðum burt frá vegsvæðinu. Vatn í frárennslisskurðum fellur venjulega ár eða vötn. Frárennslisskurður er er mikilvægur hluti afrennsliskerfis en gleymist iðulega. Ef slíkur skurður er stíflaður getur það valdið miklum vandamálum fyrir veginn á stóru svæði. Frárennslisskurðir liggja venjulega utan veghelgunarsvæðis þannig að veghaldari hefur yfirleitt ekki yfirráð yfir því landi sem þeir fara um. Slíkt getur valdið vandamálum þegar skurður stíflast og leita þarf leyfis landeigenda til að fara með vinnuvélar yfir land til að opna skurðinn.

Mælt er með að langhalli frárennslisskurðar sé að minnsta kosti 4‰.  Oft þarf að draga úr þessum halla til að samræmast staðbundnum aðstæðum.

Grafa ætti frárennslisskurði þannig að botn affalls þeirra út í náttúrulega farvegi sé í sömu hæð og botn farvegarins. Ef ekki er um að ræða farvegi ætti að grafa frárennslisskurðinni það langt út að uppsöfnun silts, drullu eða annara skaðlegra efna sé í lágmarki.

Staðsetning og mat á frárennslisskurðum hefur alltaf verið nokkrum erfiðleikum háð þegar gerðar eru úttektir á afrennsliskerfum vega. Sérstaklega á þetta við þegar slíkar úttektir eru framkvæmdar úr bifreið á ferð. ROADEX hefur prófað ýmsa tækni til þess að leysa þetta vandamál. Besti kosturinn er að nota myndbandsupptökuvél sem komið er fyrir í 90o horni miðað við stefnu bílsins til þess að taka upp ástand skurðanna. GPS hnit með z hnitum (hæð) geta aðstoðað við greiningu á líklegum stöðum þar sem frárennslisskurðir ættu að liggja í lægstu dældum.

Heimild:  Teiden suunnittelu IV, Tien rakenne 4, kuivatus (Finland)

4.5 Ræsi undir aðalveg

Ræsi er rör eða ferhyrningslaga mannvirki sem eru almennt notuð sem þverun fyrir skurði og til þess að koma vatni undir veginn við náttúrulegar þveranir vatns. Í Finnlandi er ræsi skilgreind sem slíkt ef vatnsop þess er minna en 2 m, ef það er stærra er það skilgreint sem brú. Ef mannvirkið er stórt rör með vatnsopi milli 2-4 m er ræsið skilgreint sem ræsisbrú. Venjulega er ræsi hringlaga rör, en ræsi geta einnig verið rörabogar, steyptur bogi eða kassi. Lögun ræsis ræðst af staðsetningu, landþörf og leyfðri jarðvegshæð yfir ræsi.

Almennt er hægt að fá ræsi úr plasti, stáli eða steinsteypu. Finna má gömul ræsi úr timbri eða hlaðin. Oft er auðveldast að viðhalda plastræsum þar sem klaki og ís loðir ekki eins við plast og t.d. stál.

Ræsarör eru dýr og hlutfallslega lítil rör sem notuð eru í þverun geta stíflast og þarfnast hreinsunar. Af þessari ástæðu er mikilvægt að ræsarör séu nægjanlega stór og að til staðar sé yfirflæðismöguleiki. Ávallt ætti að koma ræsum fyrir eftir leiðbeiningum framleiðanda og tryggja að þau séu vernduð gagnvart rofi, útskolun og skemmdum vegna viðhalds vega.

Stærri ræsum ætti að koma fyrir í lægsta punkti. Þumalputtareglan er að þegar ræsi er komið fyrir ætti að halda breytingum á náttúrulegum farvegum í lágmarki og eins ætti að forðast alla þrengingu á farvegum. Þessu má ná fram með því að viðhalda náttúrlegum halla og straumstefnu í gegnum ræsi.

Hæð og staðsetning ræsis ræðst af ýmsum þáttum:

– Nægjanlegum langhalla (að minnsta kost 1% til þess að varna söfnun silts og drullu)

– Dýpi rás/hliðarskurða

– Hæð afrennsliskerfisins í aðliggjandi landi

– Hafa ætti í huga að oft gerist það að vegur sígur umhverfis ræsið sem veldur hækkun á hæð skurðbotns.

Almennt ætti að koma ræsum fyrir þvert á veglínu. Einnig má koma þeim fyrir með öðrum hætti ef staðbundnar aðstæður krefjast þess.

Efni í undirstöðu og aðfyllingu, sem og efni í aðlögunarkílum, ætti að vera frostfrítt og ekki innihalda stærri steina en 75 mm. Raunar ætti efni í undirstöðu ekki að innihalda kornastærðir yfir 40 mm. Rakur, vel flokkaður, sandríkur malarjarðvegur með allt að 10% fínefnum er mjög gott aðfylliefni.

Í Finnlandi er mælt með að stærð aðalræsa sé 400 mm á fáförnum vegum (ef að lengd ræsis er ekki meiri en 10 m). Stærð ræsis er skilgreint út frá innra þvermáli rörsins. Undantekningar eru þó frá þessari reglu. Til dæmis er hægt að koma minna röri fyrir inni í stóru ræsi þegar reynsla hefur sýnt að ræsið sé of stórt. Best er að breidd ræsis sé að minnsta kosti eins mikil og náttúrulegur farvegur til þess að forðast þrengingu.

STÆRÐ RÆSA
Brattar brekkur Lítt gróið Aflíðandi brekkur Vel gróið
Afrennslissvæði (Hektarar) Þvermál rörs Ø (m) Flatarm. (m2) Þvermál rörs Ø (m) Flatarm.(m2)
0..4 0.76 0.46 0.46 0.17
4..8 1.07 0.89 0.61 0.29
8..15

1.22

1.17 0.76 0.46
15..30

1.83

2.61 1.07 0.89
30..50

2.13

3.58 1.22 1.17
50..80 2.44 4.67 1.52 1.82
80..120 1.83 2.61
120..180 2.13 3.58

Við mat á ræsisstærð eru nokkrir  þættir sem þarf að taka tillit til, s.s. stærð afrennslissvæðis, gerð nærliggjandi landsvæðis, magn rigningar o.fl. Taflan hér fyrir neðan sýnir nokkur dæmi um mismunandi stærðir ræsa. Taflan byggiar á Geller & Sherad: “Low volume roads engineering – Culvert use, installation and sizing”. Gert er ráð fyrir regni milli 75 – 100 mm/klst. Lítt gróið land og brattar brekkur gefa hærri afrennslisstuðla en skógi vaxið land með miklum gróðri og aflíðandi brekkum. Aðlaga ætti ræsisgerð að náttúrufarsaðstæðum. Ef ekki er til rör af þeirri stærð sem metin er nægjanleg ætti að notast við næstu stærð fyrir ofan.

Ræsisop ætti að vera staðsett á svæði sem rof er ólíklegt. Staðir þar sem mikið er um gróður eða mjög grýtt svæði eru oft góðir staðir fyrir ræsi. Vatn sem flæðir út um ræsi getur valdið rofvandamálum þar sem það steypist út á rofgjarnan jarðveg. Rofvörn, steinhleðsla (->FAQiin), eða aðrar verkfræðilegar lausnir eru ekki eins góðar eins og að notast við vel staðsett ræsi af réttri stærð

Heimildir:

Teiden suunnittelu IV, Tien rakenne 4, kuivatus (Finland)

Berntsen and Saarenketo Drainage on low traffic volume roads

Geller & Sherad: Low volume roads engineering – Culvert use, installation and sizing

4.6 Ræsi við vegamót

Ræsi við vegamót er liggja langsum miðað við aðalveg veita vatni úr hliðarskurði yfir í næsta hliðarskurð. Slík ræsi geta legið undir stofn og tengivegi en einnig heimreiðar. Virkni slíkra ræsa er að veita vatni áfram líkt og tengingin væri ekki til staðar sem hindrun.

Ef miðað er við eldri finnskar leiðbeiningar ætti lágmarksstærð ræsa við vegamót að vera 400mm þegar lengd ræsis er meiri en 8m. Ef lengdin er minni en 8m, getur lágmarksstærð verið 300mm. Lengd ræsis ræðst af breytt vegarsins og getur verið mikil þar sem um er að ræða búðir, bensínstöðvar og önnur þjónusta. Ræsi við vegamót hafa almennt verið minni að þvermáli en ræsi er liggja undir aðalveg og vatn sem rennur um þau minni straumhraða. Minna þvermál ræsis getur leitt til þess að það stíflist og vatn leiti inni í veghlot aðalvegarins og veikt lögin í veginum, eða valdið alvarlegum rofvandamálum.

Ábyrgð á viðhaldi ræsa við vegamót er mismunandi milli ROADEX aðildarlandanna.

Í Finnlandi er eigandi oft einstaklingur og er viðhald ræsisins því á herðum hans sem eiganda vegarins. Getur þetta valdið vandamálum þar sem viðhaldi er oft ekki sinnt. Oft eru ræsin of lítil eða komið fyrir á rangan hátt. Slíkt veldur vandamálum í afrennsli og veldur skemmdum á aðalveginum. Í Svíþjóð er eigandi ræsa á vegamótum sænska Vegagerðin (Trafikverket) og ábyrgðin á viðhaldi er þeirra. Í Skotlandi er svipað uppi á teningnum, ábyrgðin er hjá veghöldurum (þ.e. sveitastjórnum sem sjá um fáfarnari vegi og Transport Scotland sem sjá um stærri vegi).  Í Noregi er svipuð skipting. Norska Vegagerðin á 3 metra frá vegbrún og flest ræsi við vegamót liggjan innan þessara fjarlægðar.

Á Íslandi þurfa landeigendur að greiða allan kostnað við ræsi á heimreiðum og ræsin þurfa að vera lögð skv. verklagsreglum Vegagerðarinnar. Varðandi aðra vegi þá á íslenska Vegagerðin almennt 20 m landspildu út frá miðlínu vegar. Á Grænlandi byggir landeigandi ræsið, en sveitarfélagið ber ábyrgð á viðhaldi þess.

4.7 Afrennsliskerfi innan vegar og veghlotslög

Lóðrétt afrennsliskerfi svo sem síulög, sérstakir jarðdúkar og sérstakar bikblöndur (svo sem gegndræpt malbik), leiða vatn úr og frá vegi, eða koma í veg fyrir sogkraft milli undirstöðu og veghlots.

Aðaltilgangur síulaga er að koma í veg fyrir að sogkraftar komist að efri lögum. Síulög þurfa að vera vel flokkuð, með hámarksskornastærð 31.5 mm, og frostfrí. Þykkt síulaga er breytileg milli norrænu landanna en almennt er miðað við 0.4 m to 0.6 m þykkt. Síulagið er neðsta veghlotlagið og er almennt komið fyrir á botni fráýtingar. Alltaf ætti að notast við síulag þegar jarðvegur í undirstöðu getur frosið (svo sem leir, og siltríkur jökulruðningur). Venjulega er síulagið aðskilið frá jarðvegi með jarðdúk.

Einnig má nota jarðdúkssamsetningar sem afrennslislög. „Undirrennslismotta“ svipar til samloku þar sem vatn er leitt um kjarna sem svipar til frumunets. Stífur plastkjarni er lagður milli tveggja jarðdúka. Mottan er lögð út á jafnt undirlag og malarefni lagt yfir sem er nógu þykkt til að vernda mottuna fyrir áhrifum þungrar vinnuumferðar.

Gegndræpt malbik er notað í löndum þar sem miklar rigningar eru tíðar. Þessi sérstaka asfalt blanda tryggir hraða afvötnun vatns af yfirborði vegar. Dregur það úr hættu á floti og lélegu skyggni vegna „slettna og úða“, og eykur þannig heildar öryggi vegarins. Vatn safnast lítið á yfirborð slíks malbiks þar sem meirihluti steina í malbikinu eru af svipaðri stærð (þ.e. mjög brött kornkúrfa). Þykkt gegndræpa malbikslagsins er venjulega 20-100 mm og er það lagt út yfir ógegndræpt malbiksgrunnlag. Þrátt fyrir góða eiginleika í bleytu hefur malbikið nokkra ókosti. Ending þess er ekki mikil og tryggja þarf að nægjanleg bitumen sé notað til þess að húða steinana. Ef að ofgnótt er af bitumeni mun hjólfaramyndun hefjast fljótt. Ef aftur á móti notast er við of lítið bitumen verður steintap. Gegndræpt malbik getur stíflast og tapað skilvirkni sinni þegar ryk og aðra sameindir frá foki, vélarslit og farmi setjast í það. Snjór, ís og salt til hálkuvarna geta einnig stíflað malbikið og hindrað flæði vatns.

Að lokum hafa sérstök efni, svo sem freytt endurunnið gler, verið notað sem afrennslis og frosteinangrandi lög. Viðarbörkur hefur einnig verið notaður í skógarvegi.

Heimildir:

Dawson Water in road structures, InfraRYL2010 (Finland)

Ehrola: Liikenneväylien rakennesuunnittelun perusteet (Finland)

4.8  Lóðréttar afrennslislausnir, undir yfirborði

Lóðréttar afrennslislausnir er oft notaðar meðfram vegum um votlendi, t.d. þar sem um er að ræða blautan vegskeringarbakka sem vatn lekur úr. Tilgangur lóðréttra afrennslislausna er að fjarlægja grunnvatn og halda jarðveginum þurrum undir veginum. Skipta má lóðréttum afrennslislausnum undir yfirborði í tvo aðal flokka; 1) aðrennslisniðurföll 2) grunnvatnslækkandi niðurföll.

Stundum getur verið hagkvæmara að notast við lóðréttar afrennslislausnir fremur en að bæta við þykku lagi ofan á veg, eða standa sífellt í viðgerðum. Sérstaklega á þetta við vegi þar sem umferð er töluverð.

Dæmigerð lausn samanstendur af aðrennslisgröf (1-2 metra djúpri) og bakfyllingu. Oftast eru slíkar grafir fylltar af mjög gegndræpu efni, sem vafið er inn í jarðdúk og gataðri lögn eða mjög gegndræpu efni er komið fyrir nærri botni. Svona afrennsliskerfi með jarðdúk einnig þekkt sem „fin drain“, eru venjulega aðeins nokkura cm þykk og komið fyrir við brún slitlags, samhliða miðlínu vegar

Afrennslisgröf (”Franskt” dren)

Afrennslisgröf samanstendur af efni sem vafið er með jarðdúk. Efnið er hringlaga eða malað malarefni. Áður fyrr var ekki lögð afrennslislögn í botn grafarinnar en nú til dags er það yfirleitt gert. Jarðdúkurinn er notaður til þess að koma í veg fyrir að fínefni setjist í malarefnið og stífli það. Jarðdúkur ætti að vera gegndræpur þannig að vatn flæði úr aðliggjandi jarðveg inn í afrennslið.

Dæmi um hvernig leggja skal afrennslisgröf:

1. Grafa mjóan skurð

2. Hreinsa allt efni vel úr honum

3. Koma fyrir jarðdúk á bökkum og botni hans

4. Koma fyrir lagi malarefnis á botni grafarinnar

5. Koma fyrir afrennslislögn ef þörf er á

6. Fylla skurðinn af malarefnum

7. Loka skurðunum og vefja jarðdúk yfir (lágmarks yfirgrip er 30cm)

8. Koma fyrir 3-5cm af svarðlagi eða öðru efni með lítið gegndræpi.  Ef safna á vatni af yfirborði þarf yfirborðsefnið einnig að vera gegndræpt.

Fin dren er afrennslislausn sem liggur meðfram vegi, og gerð úr samsettum efnum. Venjulega er notast við tvo jarðdúka á bökkum, til þess að filterlag myndist við aðliggjandi jarðveg, og svo er stífum plastkjarna komið fyrir milli dúkanna. Afrennslið úr slíkri lausn getur einnig safnast fyrir í safnara í botni aðrennslisgrafarinnar. Vatnið flæðir síðan gegnum jarðdúkinn að kjarnanum sem kemur því í næsta afrennslisskurð.

Heimildir:

Dawson: Water in road structures

Geller & Sherad: Low volume roads engineering – Drainage of low volume roads

4.9 Vegflái og skeringaflái

Markmiðið við hönnun fláa er að nota eins mildan halla eins og mögulegt er. Aflíðandi halli er umhverfisvænni, skapar meira umferðaröryggi og leiðir til minna rofs. Halli fláa ræðst af vegflokki (dreifbýlisvegur, aðalvegur, hraðbraut o.s.frv.) og staðbundnu landslagi. Í eldri finnskum leiðbeiningum er mælt með að vegflái sé ekki brattari en 1:4 og skeringarflái ekki brattari en 1:2.

Lítil stæðni í halla getur valdið afrennslisvandamálum og skemmdum á vegi. Jarðefni sem sest í skurðbotn getur stíflað vatnsrennsli og leitt til þess að vatn leiti inn í veghlotið. Slíkt getur leidd til mismuna frostlyftinga og aflögunar axla. ROADEX rannsóknir hafa sýnt fram á að óstöðugir bakkar skurða eru ein aðal ástæða vegaskemmda í Finnlandi.

Sérstak vandamál getur skapast þegar vatnmettað efni úr skurðbotnum er grafið upp og sett upp á bakkann. Þetta efni rennur fljótt aftur ofan í skurðinn og veldur þannig afleiddum skemmdum á veginum.

Heimildir:

Dawson: Water in road structures

Teiden suunnittelu IV, Tien rakenne 4, kuivatus

4.10 Sérstök afrennsliskerfi

Þegar vatni hefur verið safnað af vegi og vegsvæði þarf að koma því frá veginum að ásættanlegu afrennsli. Venjulega er hér um að ræða náttúrulega farvegi svo sem ár, vötn eða eða skurði. Ef ekki er hægt að koma afrennsli frá vegi gæti ein lausn verið að notast við „siturlögn“. Tilgangur siturlagnar er að koma vatni aftur út í náttúrulega hringrás þaðan sem það kom, þ.e. að vatn seitli aftur út í náttúran gegnum gegndræpa veggi. Siturlagnir er aðeins hægt að nota í gegndræpum jarðvegi en ekki þar sem jarðvegur er t.d. leirkenndur. Hanna þarf siturlagnir sérstaklega í hverju verki miðað við stærð og skilvirkni. Halda þarf siturlögninni opinni og hún má ekki stíflast ef hún á að virka.

Heimild: Dawson Water in road structures

SHARE: