2. Reglur um umhverfismál og mat á umhverfisáhrifum

Þessi kafli veitir almennt yfirlit yfir hvernig veghaldarar hafa tekið tillit til umhverfismála í ROADEX löndunum. Ekki er ætlunin hér að veita djúpa greiningu á viðfangsefninu en fremur að skýra frá stóru dráttunum varðandi stefnu og leiðbeiningar hjá viðkomandi yfirvöldum. Einnig er leitast við að lýsa hvernig veghaldarar innleiða leiðbeiningar sínar inn í raunveruleg verkefni. Löndin eru tekin fyrir í stafrófsröð.

2.1. Finnland

Finnska Vegagerðin hefur sína eigin umhverfisstefnu. Í stefnunni er skilgreint hvernig Vegagerðin á að vinna og hvernig hún á að þróa starfsemi sína í samræmi við meginreglur um sjálfbæra þróun. Stofnunin ber ábyrgð á viðhaldstjórnun vega og þeim umhverfisáhrifum sem af henni stafar og jafnframt fyrir sinn hluta umhverfisáhrifa er stafa frá flutningi á vegum. Umhverfisstefnan samanstendur af fimm helstu meginpunktum.

1. Vegagerðin mun þjálfa, leiðbeina og hvetja starfsfólk til þess að vera ábyrgt með tilliti til umhverfisins, heilsu, öryggi og hagkvæmni. Gerð er krafa um að allir starfsmenn taki ábyrgð á skyldum og markmiðum á sviði umhverfismála í sinni vinnu.

2. Vegagerðin mun taka þátt í skipulagningu flutningakerfisins og eiga samstarf við alla þá sem málið varðar. Markmiðið er að byggja upp flutningskerfi sem styður virkt ferða- og flutningamynstur og stuðlar jafnframt að þróun sjálfbærra svæða og samfélagslegrar uppbyggingar á svæðunum.

3. Nýir og endurbyggðir vegir verða skipulagðir þannig að þeir passi vel við umhverfið. Markmiðið er að hafa örugga, hagnýta og aðlaðandi vegi. Taka skal tillit til heildarlíftíma verkefnisins eða framkvæmdarinnar. Birgjar þurfa að standa skil á áreiðanlegum upplýsingum um gæði vara sinna með tilliti til umhverfisins.

4. Vegagerðin styður samþættingu samgöngukerfa. Vegakerfinu skal vera stjórnað með það að leiðarljósi að draga úr orkunotkun umferðar og umhverfisspjöllum.

5. Haft verður eftirlit með innleiðingu framangreindra markmiða og niðurstöðurnar verða birtar almenningi og yfirvöldum.

Í umhverfisstefnu Finnlands er gert ráð fyrir lýsingu á umhverfisáhrifum. Einnig er bætt við ýmsum umhverfisáætlunum og verkferlum í lög, reglugerðir, leiðbeiningar, stefnur og staðla. Þessi gögn eru yfirleitt mjög almenns eðlis og ekki eru veittar leiðbeiningar um hvernig slíkt mat eigi að fara fram. Afleiðing þessa er að mismunandi yfirvöld beita reglunum á mjög mismunandi hátt.

Finnska Vegagerðin hefur rannsakað umhverfisáhrif langtímaáætlana sinna frá lokum 9. áratugarins og vinna hefur farið fram með það að markmiði að tengja mat á umhverfisáhrifum við langtímaáætlanir Vegagerðarinnar Einnig hefur verið leitast við að bæta aðlögun vegavinnu að umhverfi með því að:

• Draga úr orkunotkun á vinnusvæði

• Auka flokkun úrgangs

• Að tryggja betra skipulag vegakerfis í samstarfi við aðra veghaldara og hlutaðeigandi aðila.

• Aðlaga vegi betur að umhverfi

• Tilgreina kröfur um innkaup

• Tilgreina kröfur um byggingu vega og viðhald

• Stjórna umferð

2.2. Grænland

Grænland hefur ekki sett fram neinar umhverfisreglur er tengjast vegagerð eins og staðan er í dag.  Unnið er að leiðbeiningum þar sem tekið verður á umhverfismálum. Þessar leiðbeiningar munu öðlast formlega stöðu og munu taka gildi þegar fram í sækir.

Heimild: Janus Køster, sektionsingeniør, Ineqarnermut, Attaveqarnermut Angallanermullu Naalakkersuisoqarfik

2.3. Ísland

Íslenska Vegagerðin (ICERA) hefur skilgreint helstu umhverfisþætti í starfsemi sinni. Um þessa þætti hefur Vegagerðin mótað umhverfisstefnu ásamt markmiðum. Meginmarkmið stefnunnar er að stuðla að góðri sambúð vega og umferðar við umhverfi og samfélag. Grundvöllur umhverfisstefnunar er ISO 14001:2004 staðallinn og umhverfisstjórnunarkerfi opinberrar stjórnsýslu. Megináhersla stefnunnar er að gera vegi sem eðlilegasta hluta af umhverfinu eins og kostur er. Einnig ætti vegagerð, viðhald og rekstur að hafa lágmarks áhrif á umhverfið. Ætlunin er að draga úr hávaða og notkun mengandi efna. Gott dæmi er takmörkun á innihaldsefnum þeirrar málningu sem notuð er til vegmerkinga. Í dag er aðeins notuð latex vatnsmálning.

Vegagerðin gefur út umhverfisskýrslu á hverju ári sem er yfirlit yfir umhverfisstjórnunar kerfi og helstu verkefni Vegagerðarinnar með tilliti til umhverfismála. Í viðbót við þetta heldur Vegagerðinni úti „votlendisbókhaldi“ sem skilað er til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun gefur út leiðbeiningar um endurheimt votlendis sem skaðast af völdum vegagerðar.

Vegagerðin framkvæmir einnig hagnýtar aðgerðir til þess að vernda nærumhverfi vega. Vegagerðin tekur þátt í plöntun og sáningu. Hún styður einnig við fjölda verkefna þar sem umhverfismál eru til skoðunar. Má sem dæmi nefna plöntun mismunandi gróðurs í eldri fyllingar. Einnig má nefna að stefna Vegagerðarinnar er að ganga vel frá námum sem notaðar hafa verið í vegagerð.

Heimildir:

http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Our_Roads/$file/Our%20Roads.pdf

http://english.ust.is/infobase/pollution-prevention/

http://www.ust.is/the-environment-agency-of-iceland/

2.4. Írland

Írska Vegagerðin er ábyrgt fyrir leiðbeiningum er varða umhverfismál í Írlandi. Þar eru teknir saman umhverfisþættir er snerta skipulagningu þjóðvegakerfisins, framkvæmdir á því og rekstur þess.

Írsku leiðbeiningarnar byggja á lagarammanum utan um mat á umhverfisáhrifum (EIA) og leiðbeiningum um stjórnun þjóðvegakerfisins (NRPMG). Írska Vegagerðin hefur skilgreint fjögurra þrepa umhverfissamþættingar líkan (EIM). Það auðveldar eftirlit með umhverfismálum í öllu ferlinu, ekki aðeins við skipulag kerfisins á landsvísu heldur einnig við uppbyggingu og rekstur einstakra hluta þess. Samþættingalíkanið samanstendur af fjórum þrepum:

Þrep 1: Þróun leiðbeininga á sviði umhverfismats áætlana

Fyrsta þrep líkansins veitir leiðbeiningar um hvernig eigi að þróa umhverfismat áætlana er nær yfir fjölmarga þætti á sviði umhverfismála.

Þrep 2: Leiðbeiningar um bestu starfsvenjur við framkvæmdir

Þrep tvö í samþættingarlíkaninu leiðbeinir um hvernig á að þróa bestu starfsvenjur við framkvæmdir. Markmiðið er að ráðleggja um hvernig á að greina og meta umhverfisáhrif.

Þrep 3: Umhverfisrekstraráætlun

Þriðja þrep veitir verktökum upplýsingar um hvernig eigi að innleiða og útbúa umhverfisrekstraráætlun.

Þrep 4: Eftirlit með umhverfisáhrifum.

Fjórða og síðasta þrep líkansins fjallar um eftirlit með umhverfisáhrifum. Þrepið samanstendur af rannsóknum á raunverulegum áhrifum framkvæmda á mismunandi vistkerfi. Rannsóknarniðurstöður eru notaðar til að sannreyna, endurskoða og yfirfara spár samþættingarlíkansins draga enn frekar úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.

Einnig er tekið sérstaklega á vandamálum er tengjast loftslagsbreytingum í líkaninu.

Heimild: Vincent O’Malley: Irish National Roads Authority’s (NRA) Approach to the Integration of environmental issues into national road scheme planning, construction and operation

2.5. Noregur

Norska Vegagerðin hefur þá framtíðarsýn að samgöngur ættu ekki að valda mönnum eða umhverfi alvarlegum skaða. Í þessu felst að:

  • Enginn maður ætti að verða alvarlega veikur eða verða af miklum lífsgæðum af völdum samgangna.
  • Lífræðileg fjölbreytni ætti ekki að skerðast eða skaðast.
  • Mikilvæg virkni náttúrulegra svæða ætti ekki að skaðast alvarlega.
  • Mikilvægar menningarminjar ættu ekki að skaðast eða eyðileggjast

Norska Vegagerðin ber ábyrgð á umhverfinu í sínum geira þ.e.a.s. við skipulag, byggingu og rekstur allra Evrópuvega og þjóðvega í Noregi. Enn fremur er það á hennar herðum að fylgjast með að leiðbeiningum og reglugerðum stjórnvalda er varða samspil vegageirans og umhverfis sé fylgt.  Leiðbeiningar er varða framkvæmdir sem snúa að umhverfinu má finna í skjölum samþykktum af Alþingi og ramminn utan um stefnumótun í samgöngum byggir á Samönguáætlun. Öllum framkvæmdum er fylgt eftir með 4 ára aðgerðaráætlun. Vegagerðin hefur þróað leiðbeiningar og handbækur þar sem settur er fram leiðarvísir um hvernig á að taka tillit til umhverfisins við skipulag, þróun og í daglegum rekstri vegakerfisins. Svæðisbundnar aðferðir hafa verið útbúnar fyrir Suður, Mið og Norður svæði Noregs.

2.6.  Skotland

Skoska Heimastjórnin hefur sett fram umhverfisstefnu fyrir Skotland. Markmiðið hennar er að draga úr áhrifum á umhverfið með árangursríkri rekstrarstjórnun. Umhverfisstefnan byggir á stefnu Bretlands um sjálfbæra þróun. Fimm meginstoðir hennar eru; sjálfbær neysla og framleiðsla, loftslagbreytingar og orka, verndun náttúrulegra auðlinda, bæting umhverfisins og sjálfbærni samfélaga.

Skoska Heimastjórnin hefur skilgreint nokkrar leiðir til þess að ná fram aukinni sjálfbærni. Þessari leiðir eru:

• draga úr úrgangi með minni notkun, endurnýtingu, viðgerðum og endurvinnslu.

• minnka vatnsnotkun og aðra notkun auðlinda.

• koma í veg fyrir mengun með því að forðast notkun hættulegra efna og stjórna á virkan hátt ferlum, starfsemi og förgun þar sem notkun þeirra er óhjákvæmileg.

• innkaup á vörum með tilliti til umhverfisáhrifa þeirra.

• nota orku á skilvirkan hátt með það að markmiði að minnka útblástur gróðurhúsaloftegunda.

• auka notkun sjálfbærra ferðamáta bæði í ferðum að og frá vinnu og viðskiptaferðalögum.

• minnka ferðaþörf.

• verndun og viðhald lífræðilegs fjölbreytileika á landi Heimstjórnarinnar.

• krafa á starfsfólk og verktaka að fylgja lögum og reglum varðandi umhverfismál.

• koma upplýsingum um umhverfið fyrir augu starfsfólks og almennings.

Skoska Náttúruverndarstofnunin (SEPA) fylgist með málefnum umhverfisins í Skotlandi. Aðal hlutverk hennar er að vernda og bæta umhverfið.

Heimild:

http://www.sepa.org.uk/about_us.aspx

http://www.scotland.gov.uk/Topics/Government/18823/GreenGovCon/Policy

2.7. Svíþjóð

Þeir þættir vegagerðar í Svíþjóð er snúa að umhverfinu hlúta reglum Umhverfisregluverksins (Environmental Code). Innan þess fellur reglan um „tillitssemi“:

Þeir þættir vegagerðar í Svíþjóð er snúa að umhverfinu hlúta reglum Umhverfisregluverksins (Environmental Code). Innan þess fellur reglan um „tillitssemi“:

• Sönnunarbyrðin um að tillitssemi hafi verið gætt liggur hjá öllum aðilum.

• Allir aðilar þurfa að búa yfir nægilegri þekkingu á starfsemi sinni þannig að mótvægisaðgerðir komi til ef umhverfið skaðast.

• Öllum tiltækum ráðum á að beita til að forðast umhverfisskaða.

• Meginreglan um aðgæslu gildir.

• Beita ætti bestu tækni svo lengi sem það er gerlegt.

• Ráðstafanir ætti að staðsetja þannig að markmið með þeim náist fram.

• Endurnýting og endurvinnsla efnis á að fara fram þegar slíkt er mögulegt.

• Vörur ættu að vera eins skaðlausar og hægt er.

• Krafan um tillitssemi á við eins lengi og það er gerlegt. Það er á ábyrgð hlutaðeigandi aðila að sýna fram á hvað er ógerlegt.

• Mengunarbótakrafan á við. Alltaf þarf sá sem mengar að greiða skaðann.

Til þess unnt sé að innleiða regluverkið í raunverulegum verkefnum þurfa umhverfisáhrif að vera metin fyrir hverja framkvæmd. Í slíku mati felst; lýsing á framkvæmd, aðrar lausnir, núverandi umhverfisaðstæður, landnotkun og umferðaraðstæður, þau áhrif sem  það getur haft að aðhafast ekkert, spá fyrir um þau umhverfisáhrif sem verða og hvaða mótvægisaðgerðir þurfa að koma til. Mismunandi áhersla er lögð á þessi atriði eftir því hvar í framkvæmdarferlinu umhverfisáhrifin eiga við.

Gerð er krafa um lýsingu á umhverfisáhrifum þegar litið er til ákvarðanatöku þannig að vinnan við umhverfislýsinguna sé samtvinnuð skipulagi verksins.

Heimildir, aðrar en ROADEX upplýsingar og útgáfur sem notaðar eru í þessum kafla, má sjá í enda hvers kafla.

SHARE: