4. Umhverfisvandamál er tengjast veghaldi

Vegir geta bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á fólk og umhverfi. Jákvæðu áhrifin eru að vegir veita möguleika á aðgengi og samgöngur fólks og aðflutning vara. Neikvæðu áhrifin eru þau að vegir nota land og mynda hindranir fyrir dýr. Þeir geta einnig valdið slæmum áhrifum á náttúrulegar vatnsauðlindir og ósasvæði.

Þrír skaðlegustu umhverfisþættirnir sem tengjast vegagerð eru hávaði, ryk og titringur. Hávaði er mestur við byggingu vega en getur einnig átt sér stað í minna mæli við viðhald þeirra. Ryk verður til á meðan á byggingu malavega stendur og þegar lögð eru út óbundin lög í vegbyggingu. Of mikla rykmyndun má beisla með aðferðum eins og vökvun, notkunar annara steinefna og með rykbindiefni nálægt byggð. Titringur getur hlotist af ójöfnu yfirborði og getur valdið töluverðum áhrifum og vandamálum fyrir byggingar í nágrenni við upptakastað.

Þetta námskeið leggur megináherslu á umhverfisáhrif hávaða, ryks, titrings auk annara umhverfisvandamála. Tillögur um hvernig má draga úr þessum áhrifum er einnig reifaðar.

4.1. Hávaði

Hávaði er hljóð sem óæskilegt fyrir þann sem á hlýðir. Magn truflunar sem verður vegna hljóðsins ræðst af umfangi og styrk, og jafnframt á næmni þess sem fyrir verður. Hávaði er venjulega ekki mikið vandamál á norðurjaðarsvæðum þar sem svæðið er venjulega strjálbýlt og vegakerfin liggja að miklu leyti um óbyggð eða strjálbýl svæði. Mest öll vegavinna sem fer fram á norðurjaðarsvæðum er utan þéttbýlis sem veldur því að áhrif hávaða á nágrennið er venjulega ekki sérstakt vandamál. Að sjálfsögðu þarf samt að framfylgja stöðlum á framkvæmdarstað.

Ástand vega hefur einnig áhrif á hávaða. Ef að vegur er í slæmu ásigkomulagi og bifreiðar fara hratt yfir getur það valdið meiri hávaða en ef að vegurinn væri í betra ástandi.

Taka þarf tillit til þess að framkvæmdir eru líklegar til þess að framkalla hávaða og truflun að völdum hávaða getur valdið álagi og streitu í búféi.

Einfalt en mjög árangursríkt ráð til þess að stýra áhrifum hávaða er að láta þá vita, sem geta orðið fyrir áhrifum af völdum framkvæmda, að vinna sé við það að hefjast. Dreifing bæklinga í póstkassa, og/eða uppsetning tilkynninga á tilkynningarspjöld er ein aðferð til þess að láta vita. Þar sem um er að ræða meiriháttar framkvæmd gæti verið skynsamlegt að halda opinn fund til upplýsingagjafar. Ef fólk fær að vita um yfirvofandi aðgerðir er þol þeirra fyrir trufluninni venjulega meira. Skynsamlegt er að vinna sem mest innan eðlilegs vinnutíma ef mögulegt er. Ef það er ekki hægt ætti sérstaklega að láta vita af því. Takmarkaðar leiðir eru til þess að draga úr hávaða. Það gefur augaleið að hægt er að minnka hávaða með sérstökum girðingum eða svipuðum mannvirkjum en slík er varla raunhæft á vinnusvæði nema að um meiriháttar framkvæmd sé um að ræða.

Almennt gildir um hávaða að notast ætti við eins ný tæki og hægt er. Nýrri tæki búa venjulega við betri hávaða og titringsvörn en eldri tæki. Útblástur og annað slíkt er einnig minna frá nýrri tækjum.

4.2 Titringur

Titringur truflar fólk sem býr nálægt vegi en hann getur einnig skemmt byggingar og viðkvæman tækjabúnað. Titringur, líkt og hávaði, getur haft áhrif á dýralíf. Ennfremur getur titringur valdið skemmdum á jarðfræðilegum myndunum og fornleifum.

Stór hluti titrings, er veldur óþægindum fyrir íbúa í nágrenni vegar, kemur frá ójöfnum holóttum vegum þar sem frostlyftinga gætir. Magn titrings getur verið mismunandi eftir árstíðum. Titringur af völdum ójafns yfirborðs getur líka valdið heilsu ökumanna skráveifum eins og ROADEX rannsóknir hafa sýnt fram á.  [link: Johan Granlund report]

Ef líklegt er að titringur verði af völdum vegaframkvæmda ætti að íhuga vel hvenær framkvæma á ákveðna verkþætti. Eins og í tilfelli hávaða er einföld aðgerð að láta nærstadda vita um hvað stendur til, ástæður fyrir aðgerðum og hvað þær standa lengi yfir.

Forðast ætti eða lágmarka ónauðsynlegan titring svo sem þjöppun með þungum völturum eða klapparsprengingar á byggðum svæðum. Mikill titringur getur skaðað byggingar og önnur mannvirki sem getur leitt af sér lögsóknir. Því ætti að notast við  aðferðir og tæki sem lágmarka titring. Slíkt er oft erfitt í framkvæmd þar sem vegagerð krefst sérhæfðra tækja svo sem vélgrafa, þungra vörubifreiða o.s.frv. Til að minnka titring í nágrenni sprenginga ætti að notast við þéttari holusetningu og minna sprengiefni.

Almennt gildir með titring (og einnig hávaða) að nota ný tæki þar sem það er mögulegt. Slík tæki búa venjulega yfir betri hávaða og titringsvörn en eldri vélar. Útblástur og annað slíkt er einnig minna frá nýrri tækjum.

Eins og áður hefur verið minnst á hefur vegyfirborð áhrif á titring. Sem dæmi má nefna að þegar þung vörubifreið ekur um veghluta þar sem finna má hátt hlutfall frostlyftinga mun það leiða af sér mikinn titring. Með því að halda vegi í góðu og jöfnu ástandi minnkar titringur til muna.

4.3 Ryk

Ryk er nánast óhjákvæmileg afleiðing vegagerðar. Finna má fínkornótt efni í möl, mulinni möl og bergmulningi og þegar efnið er þurrt getur gosið upp nokkuð viðamikið rykský þegar hreyft er við því. Rykið sem þá myndast getur truflað bæði íbúa og umhverfi í nágreninu.

Ryk er almennt ekki mikið vandamál á norðurjaðarsvæðum. Eins og minnst var á áðan er norðurjaðarinn fremur strjálbýll og ryk frá „hreinum“ efnum veldur sjaldnast miklum vandamálum, að þessu sögðu ætti samt ekki að líta fram hjá þessu atriði. Ryk frá staðbundnu jarðefni ætti ekki að valda skaða á umhverfinu hvort sem það fellur til náttúrulega eða með næstu regnskúr. Samt sem áður ætti að hafa í huga að ryk kemst í ár og vötn og veldur gruggi í vatni. Sérstaka aðgát ætti að viðhafa í slíkum tilvikum.

Vandamál er stafa að ryki má leysa með vökvun, velja má önnur jarðefni, eða með rykbindiefni nálægt byggð. Ef rykbindiefni eru notuð ætti að viðhafa sérstaka aðgát þar sem þau geta haft áhrif á grunnvatn (sjá í kafla 4.7).

4.4 Úrgangur

Úrgangur er skilgreindur sem „hverskyns efni eða hlutur sem handhafi hyggst henda eða þarf að henda“. Hafa ber í huga að óvænt efni geta hér komið til greina svo sem jarðvegur sem ekki er hægt að endurnota.

Úrgangur getur komið fram á mismunandi vegu:

• Umbúðir

• Afgangs vegbyggingarefni

• Hættulegur úrgangur, olía úr vélum o.s.frv.

Einnig má flokka úrgang eftir því hvaða áhrif hann hefur á umhverfið.

• Óvirkur úrgangur, efni sem tekur engum breytingum við eðlis-, efna- eða líffræðileg efnahvörf eftir urðun á venjulegum ruslahaug.

• Virkur úrgangur er andstæða óvirks úrgangs. Sem dæmi um slíkan úrgang má nefna, olíuleifar og rafhlöður. Sérstak tilfelli er úrgangur sem er hættulegur lífverum, t.d. eldfimur úrgangur eða úrgangur sem veldur sprengihættu.

Það borgar sig alltaf að draga úr úrgangi. Flest lönd, þar á meðal ROADEX aðildarlöndin, setja sérstakt gjald eða skatt á úrgang sem fer til urðunar. Auk þessara „urðunargjalda“ felst einnig kostnaður í flutningi til og frá vinnusvæði. Með því að draga úr þessum flutningum má spara sér tæki og mannskap. Þrátt fyrir þá staðreynd að ef minna magn úrgangs skilar sér á urðunarstað fer minna fé til ríkisins er það þjóðhagslega hagkvæmt að draga sem mest úr úrgangi.

Góð meðhöndlun úrgangs gerir framkvæmdaraðilum kleyft að endurnota stærstan hluta afgangsefna á einn eða annan hátt. Ef gæði efnis eru of lág til þess að nota í sjálfa vegbygginguna má oftast finna not fyrir það í annarri landmótun, t.d. til þess að jafna út brattar brekkur. Einhver úrgangur fellur þó alltaf til, t.d. umbúðir, olía og slíkt en slíkt ætti að leitast við að lágmarka. Öll aðildarlönd ROADEX verkefnisins hafa reglur um hvernig á að meðhöndla úrgang. Mjög mikilvægt er að efni sem getur skaðað umhverfið sé flutt á urðunarstað eða í brennsluofna sem geta tekið á móti slíkum efnum. Upplýsingar um hvar megi nálgast slíka staði má finna hjá sveitarfélögum. Annað vandmál sem upp getur komið, en er ekki mjög algengt á norðurjaðarsvæðum, er mengun jarðvegs þar sem nauðsynlegt getur verið að fjarlægja og losa sig við hann.

Hættulegur,  einnig þekktur sem skaðlegur, úrgangur veldur mikilli hættu fyrir umhverfið og heilsu manna. Um slíkan úrgang gilda strangar reglur (reglur Evrópusambandsins og yfirvalda). Þessar reglur þýða meiri skráningu, eftirlit og skyldur gagnvart slíkum úrgangi.

Hættulegur úrgangur er flokkaður sem efni með eftirfarandi eiginleika:

• eldfimt

• ætandi

• oxunargjarnt

• sprengifimt

• eitrað

• skaðlegt og ertandi

• hættulegt umhverfinu

Dæmi um hættulegan úrgang í vegagerð er eldsneyti, rafgeymar og rafgeymasýra, bremsuvökvi, sjálfskiptingaolía, höggdeyfar, önnur sýra, o.s.frv. Aðal uppruni þessara efna eru tæki (bæði bifreiðar og tæki sem sinna viðhaldi). Á meðan á vegagerð og viðhaldi vega stendur þarf að halda tækjum vel við til þess að tryggja að ekki sé um leka að ræða.

Heimildir:

http://ec.europa.eu/environment/waste/hazardous_index.htm

http://www.ekorosk.fi/index.asp?m=1&sivu=avfallstyper_farligt

Kostnaður vegna úrgangs er mikilvæg ástæða fyrir því að forðast hann. Léleg stjórnun úrgangs kostar tíma og peningar. Sem dæmi má nefna:

• Illa er staðið að meðhöndlun úrgangs í upphafi framkvæmda. Leiðir af sér háan kostnað á seinni stigum verks. Slíkan kostnað má forðast ef meðhöndlunin fer rétt fram frá upphafi.

• Kostnaður vegna geymslu, flutnings og förgun úrgangs.

• Tími (kostnaður) vegna meðhöndlunar úrgangs.

• Aukin kostnaður þegar nothæft efni fer í súginn.

Þegar kostnaður er tekin saman kemur berlega í ljós að það er mjög hagkvæmt að hafa hugsað út í og gert áætlun um meðhöndlun úrgangs.

4.5 Vegagerðarefni og vegbúnaður

Efni sem notuð eru til vegagerðar og í vegbúnað getur líka valdið mengun. Umhverfisáhrif og magn mengunar sem til fellur ræðst af því um hvaða efni er að ræða. Auk þess hefur gerð, ástand og slitþol yfirborðs, áhrif vatns og umferðar og ýmsir aðrir þættir áhrif.

Endurunninn efni og aukaafurðir frá iðnaði

Endurunninn efni og aukaafurðir frá iðnaði geta valdið nýrri mengunarhættu. Sem dæmi um slík efni í vegagerð eru malað malbik, steinsteypa og múrsteinar, berg og jarðvegur frá námuiðnaði, aukaafurðir frá málmvinnslu (svo sem gjall), púður og botnfallsaska sérstaklega svokölluð „svifaska“ frá kolaverum, og aðrar aukaafurðir eins og botnfallsaska úr ruslabrennsluverum sveitafélaga. Endurunninn efni geta innihaldið mörg mengandi efni, t.d. þungmálma, olíu og lífræn ör-aðskotaefni og annað slíkt. Huga þarf vel að notkun slíkra efna og þau þarf að prófa rækilega til þess að tryggt sé að þau nýtist sem vegbyggingarefni og mengi ekki. Af ROADEX aðildarlöndunum hefur Svíþjóð gefið út leiðbeiningar um notkun svona efna. Leiðbeiningarnar kveða t.d. á um; gæði, forskrift, efnafræðilegar og tæknilegar kröfur fyrir efnin sem og leiðbeiningar um prófanir á þeim. Leiðbeiningarnar veita einnig ráðleggingar hvernig á að standa að mati á umhverfisáhrifum á þeim og hvar sé hægt að nota afgangsefnin og í hvaða tilfellum það er ekki mögulegt.

Heimild: Åsa Lindgren, Swedish Transport Administration

Bundin slitlög

Bundin slitlög nú til dags eru hönnuð þannig að þau sleppi frá sér sem minnstu magni af mengandi efnum. Ein hætta sem stafar frá slíkum slitlögum nú til dags er þegar slit verður af völdum nagladekkja, þar sem þau eru leyfð. Þetta ætti ekki að vera mikið vandamál á fáfarnari vegum. Gömul bundin slitlög sem innihalda kolatjöru þurfa venjulega sérstakrar ummönnun vegna tiltekinna efnasambanda í kolatjörunni. Kolatjara er ekki alls staðar flokkuð sem hættulegur úrgangur. Ef reglugerðir flokka tjöruna sem hættulegan úrgang verður endurvinnsla efnisins þeim mun erfiðari. Sum vegayfirvöld kjósa frekar að tjaran sé endurunnin fremur en að hún sé fjarlægð og meðhöndluð. Sænska Vegagerðin hefur t.d. gefið út sérstakar leiðbeiningar um hvernig eigi að vinna með tjöru. Í leiðbeiningunum má finna nokkrar aðferðir sem ráðast af hversu mikið að efnasambandinu 16-PAH er í tjörunni. Í reynd hefur það sýnt sig að best er að eiga ekkert við bundin slitlög sem innihalda tjöru heldur leyfa þeim að halda sér í vegbyggingunni. Ef þörf er á að fjarlægja slík lög, þá veita leiðbeiningarnar upplýsingar um hvernig á að bera sig að. Skoða þarf hvert tilvik sérstaklega og miða þá við umhverfisviðmið sem gilda í hverju landi. Í Noregi hefur t.d. lítið verið notast við kolatjöru í bundin slitlög. Ástæðan fyrir því er að vegakerfið í Noregi er yngra en t.d. í Svíþjóð eða Skotlandi. Norskir vegir hafa að mestu leyti verið byggðir upp á eftirstríðsárunum þegar kolatjara var almennt ekki í notkun.

Heimild:

Lindgren Å., Friberg F.: Tar-Containing Asphalt – A European Problem seen from Swedish Perspective and Åsa Lindgren, Swedish Transport Administration

Náttúruleg steinefni

Eiginleikar náttúrulegra steinefna ráðast af steindafræði og þungmálmsinnihaldi þeirra. Algengt vandamál á fáförnum vegum er ryk sem myndast á óbundnu yfirborði malarvega.

Vegbúnaður

Dæmi um vegbúnað eru skilti, vegrið, merkjarör og ljósastaurar. Venjulega eru þessir hlutir úr galvaníseruðu stáli en þeir geta samt ryðgað. Sink getur sloppið út í umhverfið með notkun hálkuvarnarsalts og auka þess getur eldri gerð vegmerkingarmálningar innihaldið þungmálma. Samt sem áður, ef miðað er við vegi með þungri umferð, veldur vegbúnaður á fáförnum vegum litlum vandkvæðum fyrir umhverfið.

4.6 Dregið úr umhverfisáhrifum

Sérhver vegur veldur einhverju álagi á umhverfi. Hugsanlega verður mesti skaðinn við upphaflega veglagningu og leggjast ætti í aðgerðir til þess að draga úr þeim áhrifum. Áður en hægt er að fara í slíkar aðgerðir þarf að greina uppruna og leiðir mengunarvalda. Þumalputtareglan er „uppruni – leið –leiðarendi“. Þessi þrjú atriði skilgreina þrjár helstu breyturnar í mótvægisaðgerðum. Mótvægisaðgerðir er hægt að framkvæma bæði innan og utan vinnusvæðis.

Uppruni

Það eru þrjár leiðir mögulegar til þess að takast á við uppruna mengunar. Forvarnir miða að því að stöðva losun mengandi efna út í umhverfið. Raundæmi um forvarnir er að banna notkun afísingarefna á vatnsverndarsvæðum. Að forðast eru sérstakar hönnunaraðferðir eins og að hanna veglínu þannig að hún liggi ekki yfir viðkvæm svæði. Úrdráttur er síðasta úrræðið og ætti aðeins að notast þegar ekki er hægt að stöðva eða forðast losun mengandi efna. Dæmi um þetta er fækkun fjölda vöruflutningabifreiða sem leyft er að aka um viðkvæm svæði.

Leiðir

Mótvægisaðgerðir gegn leiðum mengunarvalda eru að grípa inn í (á staðnum aðferðin) eða stefnubreyting (utan staðar). Að grípa inn þýðir að hreyfing mengunarvalds er stöðvuð t.d. í siturtjörn eða með hvarfahindrun. Stefnubreyting þýðir að mengunarvaldi er gerð ný leið. Dæmi um slíkt er ef að menguðu vatni er fundin leið um vatnshelt frárennsliskerfi að skolpstöð til meðferðar.

Leiðarendi

Ef að mengunarvaldur nær leiðarenda eru einu mögulega mótvægisaðgerðir hreinsun (á staðnum) eða bætur (utan staðar). Bætur þýða efnahagslegar eða skipti ráðstafanir, t.d. greiðsla er innt af hendi til landeiganda sem verður fyrir mengun á landi sínu. Hreinsun er venjulega aðeins notuð þar sem skaðleg eða slæm áhrif verða á umhverfisverndarsvæði. Í raun þýðir þetta að menguðum jarðefnum er skipt út fyrir ný, hrein efni.

4.7 Grunnvatnsmengun

Þær aðgerðir á vegum sem valda hvað mestum umhverfisáhrifum í ROADEX löndunum eru (a) hálkuvörn og snjóhreinsun að vetrarlagi, og (b) notkun rykbindiefna á malarvegum að sumarlagi. Báðar þessar aðgerðir miða að því að auka viðnám á vegum og viðhalda þar með virkni þeirra. Næstu málsgreinar sýna fram á hvernig veghaldarar geta minnkað áhrif með aðferðum, reglum og stefnumörkun. Ath: Oft þarf að grípa til sértækra aðgerða á vegum sem liggja um vatnsverndarsvæði til þess að varðveita gæði vatns. Slíkt á einnig við fáfarna vegi og þá sérstaklega ef vatnsból liggja nærri vegi.

Vetrarþjónusta

Hægt er að standa að hálkuvörn og snjóhreinsun bæði á vélrænan og efnafræðilegan hátt. Algengasta hálkuvarnarefnið er vegsalt (NaCI). Lítilsháttar magni af kalíumferrósýaníði er venjulega bætt við NaCI sem kekkjarvarnaefni til þess að varna því að saltkornin bindist saman. Önnur hálkuvarnarefni sem hægt er að nota eru úrea, kalsíumklóríð og kalsíumacetate. Á fáförnum vegum norðurjaðarsvæðanna er algengast að vetrarþjónustan reiði sig á vélrænar aðferðir og salt er aðeins notað að litlu leyti.

Ókostir hálkuvarnarsalts

Helstu ókostir hálkuvarnarefna er að þau geta mengað jarðveg, grunnvatn og yfirborðsvatn. Hálkuvarnarefni geta líka aukið hreyfanleika þungmálma sem safnast fyrir við hlið vegar. Salt bleytir vegyfirborð sem gerir mengunarvöldum á yfirborðinu kleyft að leka niður í vegbygginguna og út um fláan og eftir vegöxlum. Sódíum klóríð eykur leysni margra þungmálma.

Rykbinding

Rykmyndun og rykbinding er eitt af einkennum fáfarinna malarvega þar sem slitlagsefnið býr ekki yfir nægu magni fínefna til þess að mynda sog. Rykbinding er venjulega framkvæmd með söltum eins og kalsíumklóríði (CaCl2) og magnesíumklóríði (MgCl2). Þessi sölt hafa sömu ókosti og hálkuvarnarsöltin. Minnka má magn rykbindiefna með því að nota nóg af góðu fínefni í slitlagið. Finnar hafa t.d. uppgötvað að mulinn jökulruðningur er gott slitlagsefni með góðum rykeiginleikum.

4.8 Jarðvegsmengun og hvernig má komast hjá henni

Hreinleiki norðurjaðarsvæðanna er heimsþekktur. Hættan á að finna mengaðan jarðveg er ekki mjög mikil, þrátt fyrir að hún sé til staðar. Ýmis viðvörunarmerki má sjá ef slíkt er uppi á teningnum. Olíuslikja á skurðum er t.d. skýrt merki um mengun. Ástæðan fyrir olíunni getur verið leki frá vinnu við veginn en getur einnig stafað frá eldri mengunarvöldum. Nefið, eða þefskynið réttara sagt, er ágætt tól til þess að greina mengun. Gæta skal varúðar ef að lykt að olíu, brennisteini og slíku finnst. Mengun getur líka verið áþreifanleg eins og rusl sem finnst í jörðu. Jarðvegur getur einnig verið mislitur og bent þannig til mengunar.

Aðgerðum manna er stýrt með ströngum ramma umhverfisverndarlaga. Að valda skaða eða eyðileggja náttúru innan umhverfisverndarsvæða er glæpsamleg athæfi. Athæfi eins og vegagerð getur valdið sárum í náttúrunni og af þessari ástæðu þurfa slíkar aðgerðir leyfi frá yfirvöldum umhverfismála.

Viðhafa þarf gott eftirlit með efnum sem nota á í vegagerð til þess að koma í veg fyrir nýja mengun. Líklegir mengunarvaldar eru t.d. leysiefni og olíuvörur. Leki frá bifreiðum og öðrum tækjum er einfaldasti uppruni mengunar en jafnframt oft sá skaðlegasti. Slíka mengun má venjulega forðast með reglubundinni þjónustu, en stundum vill hún ekki hverfa. Venjulega er auðveldara að eiga við almennt rusl á vinnusvæði. Einfalt er að safna rusli og hægt er að koma flokkunarstöð fyrir á svæðinu.

Ef áhyggjur eru uppi um að vegsvæði sé mögulega mengað er fyrsta og mikilvægasta skrefið að setja upp könnunaráætlun. Slík áætlun getur skilgreint hvaða vettvangsrannsóknir, sýnatöku og greiningu þarf að framkvæma. Hægt er að hanna kerfisbundnar sýnatökur og prófanir út frá áætluninni og framkvæma.

Mismunandi aðferðum og tækjum má beita til þess að taka sýni úr vegi, jarðvegi og grunnvatni. Sýni er hægt að taka úr frárennslisvatni t.d. til að greina flökt í mengun á meðan á illviðrum stendur og eftir þau, eða eftir mikla rigningu og snjóbráðnun. Einnig má hafa eftirlit með mengun í frárennslisvatni eftir slys. Sýni er hægt að taka úr vötnum og ám. Sýnataka úr grunnvatni er venjulega framkvæmd í gegnum núverandi innviði eins og brunna og vatnsból.

Sumar mælingar er hægt að framkvæma á staðnum t.d. pH-, minnkunarmöguleika- (redox potential) og rafleiðnimælingar. Aðrar mælingar þarf að framkvæma í rannsóknarstofu. Algengustu rannsóknarstofuprófanir eru útskolunarpróf, megindleg efnafræðigreining og eituráhrifapróf.

Ráða þarf til sérfræðinga ef að mengaður jarðvegur finnst. Slíkir sérfræðingar vita hvernig meðhöndla skal efni, hvernig á að losa sig við þau o.s.frv. Góðar og gildar ástæður er því til staðar til þess að forðast nýja mengun. Mjög dýrt getur verið að hreinsa upp mengun og mengun er venjulega afleiðing lélegrar stjórnunar.

Ef ekki er hægt að forðast leka, þarf að gæta þess vel að safna vökvanum. Umfram allt er mikilvægt að koma í veg fyrir frekari dreifingu, sérstaklega þegar grunnvatn er til staðar. Mengunarvaldandi efnum sem safnað er þarf að koma til fullnægjandi meðhöndlunar á safnstöð. Líta þarf á mengað vatn sem úrgang og ætti alls ekki að setja það í venjulegt holræsakerfi.

4.9 Dreifing mengunar

Ef að vegur og umhverfi hans verður fyrir mengun þrátt fyrir að þeim ráðstöfunum sem getið er hér að ofan sé framfylgt, er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvernig mengun breiðist út frá upptakastað til þess að hægt sé að hanna viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hana. Útbreiðsla mengunar fer fram á lítilega mismunandi hátt eftir því hvort að jarðvegur sé mettaður (undir yfirborði grunnvatns) eða ómettaður (yfir grunnvatnsyfirborði). Í mettuðum jarðvegi fer dreifingin fram með flæði, aðstreymi og dreifingu. Í ómettuðum jarðvegi ræðst útbreiðsla mengunar af vatnsinnihaldi.

Ef jarðvegur er mettaður (þ.e. holrýmd full af vatni), geta agnir hreyfst á þrennan hátt; með flæði, aðstreymi og dreifingu. Flæði verkar á magn mengunar. Agnir flæða frá svæðum þar sem magn er mikið að svæðum þar sem minna er um mengun. Flæði getur átt sér stað þrátt fyrir að vökvinn sjálfur standi kyrr. Gott dæmi um flæði er útbreiðsla rykbindiefna með osmósun á malarvegum Aðstreymi verkar á hreyfingu vatns, agnir hreyfast með vatninu. Dreifing verður þegar vatn hreyfist innan holrýma og agnir dreifast á staðbundinn hátt vegna breytinga í flæði vökvans.

Ef að jarðvegur er ómettaður (þ.e. holrýmd ekki full af vatni), geta agnir hreyfst á ýmsan hátt. Sog verður þegar agnir losna frá vegbyggingarefni vegna áhrifa vatns. Aðsog er þegar sameindir eða jónir í gas- eða vökvaástandi límast eða festast við yfirborð annarar jóna sem eru í föstu ástandi, eða við yfirborð jarðvegsagna. Afsog er ferli sem felst í því að sameindir eða jónir hreyfast í gagnstæðar áttir. Aðsog/afsog hefur mikil áhrif á hegðun ólífræns og lífræns efnis í jarðvegi milli vökva ástands og fasts ástands. Uppleysing verður þegar uppleysanlega efni leysast upp í vökva. Útfelling er andstæðan við uppleysingu og verður þegar efni fer úr vökva ástandi og verður fast. Skiptihvörf verða þegar tvö hvarfagjörn efni mætast, oftast í vökvaformi. Þessi hvörf geta verið skipti á rafeindum, skipti á róteindum eða skipti á samstæðum jóna og sameinda.

Heimildir aðrar en ROADEX upplýsingar og útgáfur notaðar í þessum kafla:  Andrew Dawson: Water in road structures.

SHARE: